148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er vissulega verið að auka útgjöld til margra góðra verka. Það er hins vegar nær fordæmalaus útgjaldaaukning sem í því er að finna þvert á varnaðarorð fjölmargra aðila þar að lútandi, þvert á reynslu sögunnar, um að einmitt á þessum tíma hagsveiflunnar þurfum við að gæta aðhalds. Þó að við séum ánægð að sjá þá forgangsröðun sem er að finna í þessu frumvarpi verður að hafa í huga að núna eru varhugaverðir tímar.

Þetta frumvarp grefur undan efnahagslegum stöðugleika. Þetta frumvarp stuðlar að hærra vaxtastigi en ella. Þetta frumvarp dregur engan lærdóm af fyrri hagstjórnarmistökum sögunnar og það er miður.