148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að segja það sama og hv. þingmaður sagði rétt á undan mér. Það hvað við höfum unnið þetta á stuttum tíma, þrátt fyrir að fólk hafi lagt sig allt fram við það, þýðir í mínum huga að óhjákvæmilega eru einhver mistök í þessu frumvarpi. Okkur yfirsást óhjákvæmilega eitthvað jafnvel þótt einstaka þingmaður finni vel út úr einhverju einu tilteknu atriði og haldi um það miklar ræður gera aðrir þingmenn hið sama sem þýðir að þeir geta ekki endilega staðfest fullyrðingar hver annars.

Mér hefur fundist svolítið í þessari umræðu eins og fólk sé ekki einu sinni sammála um staðreyndirnar. Það er ekki við neinu öðru að búast þegar svona lítill tími er til umráða, þegar pressan er svona mikil og hver þingmaður er að pæla í því sem varðar kannski þann þingmann eða hans flokk hvað mest.

Næst þurfa vinnubrögðin að vera betri. Ég veit að þau verða betri, a.m.k. ef við förum ekki aftur í kosningar í október. [Hlátur í þingsal.]