148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Núna annað árið í röð afgreiðum við fjárlagafrumvarp við heldur óvenjulegar aðstæður þótt þær séu hvorar með sínum hættinum. Ég þakka öllum fyrir frábært starf, að hafa getað gert þetta á þessum stutta tíma. Eins og fram hefur komið eru aðstæður á Íslandi mjög sérstakar, þær eru frábærar. Efnahagslegt ástand ríkisfjármála og efnahagsmálanna í heild sinni gerir það að verkum að við getum spýtt í í mikilvægum málaflokkum eins og heilbrigðismálum, menntamálum og samgöngumálum. Þar þarf vissulega að gera betur og við verðum vonandi í færum til þess á næstu árum.

Það vekur nokkra furðu að hafa hlustað á stjórnarandstöðuna og minni hlutann á þingi gagnrýna okkur annars vegar fyrir að bæta ekki í, setja ekki 10–20 milljörðum meira í suma málaflokka, en á sama tíma koma aðrir úr sama minni hluta, vissulega öðrum flokkum, og gagnrýna okkur fyrir óhemju útgjöld. Á sama tíma (Forseti hringir.) leggja menn fram, allir flokkar í minni hlutanum, tillögur á eftir um að auka útgjöldin um 3 eða 4 milljarða. Það er eiginlega ekki alveg heil brú í þessu, (Forseti hringir.) kæru vinir.