148. löggjafarþing — 13. fundur,  30. des. 2017.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2017.

76. mál
[00:19]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2017.

Nefndin hefur fjallað um málið en með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2017.

Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2017 en fram hefur komið í greinargerð með tillögunni að á árlegum fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands og sjávarútvegsráðherra Færeyja sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum í desember hafi ekki náðst samkomulag um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Ísland bauð fram óbreyttan samning en Færeyjar kröfðust aukinna heimilda, auk þess að krefjast þess að allar takmarkanir á löndun loðnu til manneldisvinnslu í Færeyjum yrðu afnumdar. Án samkomulags við Færeyjar verða því íslenskum skipum ekki heimilar veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja á árinu 2018. Því er í tillögunni lagt til að veiðiheimildir færeyskra skipa í íslenskri lögsögu loðnuvertíðina 2017/2018 verði bundnar þeim fyrirvara að íslenskum skipum séu jafnframt heimilar veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja á árinu 2018.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir þetta rita undirrituð, Ari Trausti Guðmundsson, Birgir Þórarinsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Smári McCarthy. Inga Sæland áheyrnarfulltrúi er samþykk áliti þessu.