148. löggjafarþing — 13. fundur,  30. des. 2017.

þingfrestun.

[00:22]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Háttvirtir alþingismenn. Komið er að lokum síðasta fundar Alþingis á þessu ári. Þinghaldið í heild hefur verið með harla óvenjulegum hætti og sá tími sem við höfum haft til að ljúka fjárlögum og öðrum brýnum málum fyrir áramót verið afar naumt skammtaður. Á þeim tveimur vikum sem við höfum haft til vinnunnar hefur Alþingi engu að síður tekist að ljúka miklu verki og það er mín tilfinning að vandað hafi verið til eins og kostur var. Sá árangur hefði vitaskuld ekki náðst nema fyrir og vegna þess góða samstarfsvilja sem einkennt hefur þingstörfin síðustu daga, svo ég tali nú ekki um í dag. Megi það lofa góðu um þingstörfin á næsta ári.

Skilvirk afgreiðsla mála hefur jafnframt sýnt styrk Alþingis og getu þess til að rísa undir þeirri ábyrgð sem á því hvílir. Ég orðaði það svo í fyrra þegar Alþingi lauk störfum fyrir jól, einnig eftir mikla vinnu á skömmum tíma og við óhefðbundnar aðstæður, að Alþingi hefði staðist prófið. Ég tel að Alþingi hafi einnig gert það nú og með alveg ágætiseinkunn. Fyrir það á þingheimur allur hrós skilið.

Þá er rétt og skylt að nefna það ómetanlega framlag sem okkar dugmikla starfsfólk á nefndasviði, í skjalavinnslu, á þingfundaskrifstofu, í þingvörslu og í öllu stoðkerfi Alþingis á í þessari niðurstöðu. Það er nú vel að smáandrými komið eftir þessa lotu, ekki síður en þingmenn sjálfir.

Alþingi mun koma saman að nýju til þingfunda mánudaginn 22. janúar nk., en gert er ráð fyrir að nefndafundir hefjist nokkru fyrr, þ.e. þriðjudaginn 16. janúar.

Ég vil að lokum flytja öllum hv. þingmönnum, skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis mínar bestu óskir um gleðilegt nýtt ár og ítreka þakkir mínar fyrir ánægjulegt samstarf á því ári sem nú er senn að ljúka. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum sendi ég mínar bestu nýársóskir.