148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Völdum fylgir ábyrgð. Að bera ábyrgð þýðir einnig að taka afleiðingum gjörða sinna eða þeirra sem undir mann heyra. Í upphafi árs fengu landsmenn fregnir af því að forsætisráðherra hefði skipað starfshóp um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Ekki veitir af, enda hefur undanfarinn áratug ríkt mikið vantraust á stjórnmálum á Íslandi.

Ábyrgð ráðherra er tvenns konar: Lagaleg og pólitísk. Í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur situr dómsmálaráðherra sem í síðasta mánuði fékk á sig tvo dóma í Hæstarétti vegna embættisfærslna sinna. Þetta er langt í frá daglegt brauð. Hún var einfaldlega dæmd fyrir að hafa farið þvert gegn fimm manna hæfisnefnd sérfræðinga sem mátu umsækjendur í starf dómara við Landsrétt.

Að skipa starfshóp um eflingu trausts er góðra gjalda vert. En ég spyr forsætisráðherra: Hvað hyggst hún gera, annað en bara að segja, (Forseti hringir.) til að efla traust landsmanna á stjórnmálum?