148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísar hér til fundar sem haldinn var í morgun, og þar var einmitt rætt um nauðsyn umræðna, að við séum ekki að setja okkur reglur sem hafi ekki gildi í raun því að þær séu bara undirritaðar án umhugsunar, heldur einmitt að við tökum reglur og viðmið til raunverulegrar umræðu á okkar vettvangi.

Hv. þingmaður talar hér um starfshópa eins og þeir skipti litlu máli. Ég vil segja að það skiptir einmitt máli að undirbúa slíka umræðu, hvort sem horft er til siðareglna, hagsmunaskráningar eða annars, með vönduðum hætti þannig að við tryggjum að umræðan skili sér út til okkar sem eigum að fylgja reglunum.

Hv. þingmaður vísar í mál dómsmálaráðherrans og ég veit ekki betur en að það sé einmitt til skoðunar hjá hv. þingmanni sem leiðir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar séu þau mál til frekari skoðunar. Ég styð það að sú nefnd ljúki yfirferð sinni um þau mál eða ákveði nákvæmlega hvernig hún á að fara fram. Því það er eðlilegt að við tökum þetta mál til umræðu á þeim vettvangi (Forseti hringir.) eins og þegar hefur verið ákveðið að gera.