148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir er nokkurn veginn búin að svara því fyrsta sem mig langaði að fá svar við, þ.e. hvort hún teldi að allar upplýsingar væru komnar fram varðandi það að dómsmálaráðherra braut lög við skipun dómara í vor. Nú koma fleiri upplýsingar fram og kom fram í fjölmiðlum í dag að sérfræðingar í ráðuneytinu, sem eiga samkvæmt lögum að upplýsa ráðherra um hvort hún fari að lögum — ráðherra á samkvæmt lögum að leita þeirra til að vita hvort hann sé að fara að lögum — upplýstu hæstv. dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, um að hún væri að brjóta lög. Hún fékk að vita það tíu dögum fyrir skipunina, eitthvað svoleiðis, alla vega löngu fyrir skipunina, en hún ákvað samt að koma með skjal í þingið með tilnefningu sem braut lög samkvæmt öllum sérfræðingum sem komu fyrir nefndina.

Það er gott að fá það á hreint að forsætisráðherra vill skoða málin, vill þegar verið er að skoða svona mál að sé nauðsynleg umræða, að kallað sé eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði þetta mál vel þannig að við höfum upplýsingar um þá umræðu. (Forseti hringir.) Mig langaði bara að nefna þetta, að þetta væri skýrt, að því væri haldið til haga, og kannski fá smáandsvör frá forsætisráðherra.