148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það, af því að hv. þingmaður segir að ég kalli eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki mál til skoðunar, að ég er auðvitað bara hluti af framkvæmdarvaldinu og þetta liggur að sjálfsögðu algjörlega í höndum þingsins og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hennar hlutverki samkvæmt.

Hv. þingmaður nefnir stöðuna á vinnumarkaði. Það er svo að auðvitað er ríkið aðeins viðsemjandi í hluta þeirra samninga sem hv. þingmaður vitnar til, þ.e. þeim samningum sem eru á hinum opinbera markaði. Það sem er okkar markmið og það ferli á sér stað með hefðbundnum hætti gegnum samninganefnd ríkisins, það ferli sem við horfum til er hvort við getum náð, eins og ég sagði áðan, aukinni samstöðu með aðilum vinnumarkaðarins um framtíðarfyrirkomulag og langtímasýn á vinnumarkaði. Hluti af því og af því að hv. þingmaður nefnir starfshóp um málefni kjararáðs er auðvitað að fara yfir það fyrirkomulag sem var breytt fyrir rúmu ári en hefur ekki enn kannski haft þau áhrif að breyta fyrirkomulaginu til lengri tíma í ljósi þess að kjararáð hefur verið að úrskurða um eldri beiðnir og hins vegar er það verkefni þess hóps sem hefur verið settur að fara síðan yfir þá tölfræði sem er á bak við úrskurði kjararáðs annars vegar og hins vegar launaþróun og launasetningu á almennum markaði.

Síðan hafa aðrir hópar verið settir til að fara yfir launatölfræðina. Við ætlumst til þess að þeir hópar vinni hratt, mishratt þó, og við gerum þetta með aðilum vinnumarkaðarins. Við köllum þá að borðinu til þess að fá efnismeiri umræðu um þetta framtíðarfyrirkomulag. Ég tel því að skilgreiningin liggi nokkuð ljós fyrir og ég vonast að sjálfsögðu til þess að verkinu verði lokið á réttum tíma.