148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en ég hef nú þegar svarað henni hér á vettvangi þingsins áður, þannig að ég tel ekki að ég hafi komið mér hjá því að svara. Hins vegar var spurt um ýmsa aðra þætti.

Það er alveg rétt að við höfum séð ráðherra fá á sig dóma, hæstv. dómsmálaráðherra núna. Við höfum séð ráðherra fá á sig dóma vegna brota á jafnréttislögum, skipulagslögum og svo mætti áfram telja.

Hv. þingmaður spyr: Eru ráðherrar hafnir yfir lög? Að sjálfsögðu ekki. Dómurinn talar sínu máli, eins og ég sagði áðan. Hæstiréttur á að vera endir allrar þrætu, okkur ber að taka hann alvarlega. Okkur ber að fara yfir þetta ferli, okkur ber líka að fara yfir það lagaumhverfi sem við höfum skapað og fara yfir þær reglur sem hugsanlega þarf að setja. En hvernig axla ráðherrar ábyrgð? Ja, þau dæmi sem ég nefndi áðan leiddu ekki til afsagnar ráðherra og ég hef sjálf hvorki sem stjórnarandstöðuþingmaður né sem ráðherra í ríkisstjórn kallað sérstaklega eftir afsögnum ráðherra af þessum tilefnum. Hins vegar kalla ég eftir því að slíkir dómar séu teknir alvarlega og að við förum yfir þá á vettvangi þingsins og framkvæmdarvaldsins.