148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég gerði áðan að umtalsefni þá brýnu þörf sem ég tel vera á því að við ljúkum einhverjum áföngum í endurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili. Og af því að hv. þingmaður vísar ekki bara til veiðigjalda í sjávarútvegi heldur líka til ferðaþjónustunnar og í aðrar þær atvinnugreinar sem reiða sig á náttúruauðlindir okkar þá vil ég segja, það hefur komið fram, alla vega samkvæmt fulltrúa Vinstri grænna í þeirri nefnd sem fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði um endurskoðun á töku veiðigjalds í sjávarútvegi, hversu brýnt það er að við fáum auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég vil því byrja á að segja að ég held að það sé kannski stærsta málið til lengri tíma, þ.e. að við getum sammælst um slíkt ákvæði.

Síðan er það svo að við þurfum að sjálfsögðu að skoða fyrirkomulag veiðigjaldanna en líka gjaldtöku í ferðaþjónustu. Þar höfum við verið að boða einhvers konar komu- eða brottfarargjald sem við munum ræða nú um við aðila í ferðaþjónustu. Grundvöllurinn þarf að liggja skýr fyrir og þar held ég að stjórnarskrárákvæðið sé mikilvægasti áfanginn, svona til framtíðar litið.