148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja að ég vona að það taki ekki mörg kjörtímabil að ljúka auðlindaákvæði. Ég vonast til þess, í því plaggi sem ég lagði fram fyrir formenn flokkanna, að það verði á þessu kjörtímabili og það væri nú kannski bara dálítið góður áfangi ef við næðum því. Síðan vil ég segja, af því að hv. þingmaður segir að það sé fyrirhugað að lækka veiðigjöldin, að við erum að horfa á afkomutengingu. Það getur auðvitað leitt til bæði lækkunar og hækkunar. Eitt af því sem var m.a. til umræðu í þeirri nefnd sem ég vitnaði til áðan var auðvitað mismunandi staða útgerðarfyrirtækjanna gagnvart veiðigjaldinu eftir umfangi þeirra þar sem munar verulega miklu á smærri útgerðum og stærri útgerðum. Það atriði er hægt að endurskoða miklu fyrr sem og komu- og brottfarargjöldin eins og ég nefndi áðan þannig að að sjálfsögðu er hægt að fara í þessi mál á kjörtímabilinu með ákveðnum breytingum sem vonandi næst samstaða um. En ég held að til lengri tíma væri gríðarmikilvægt að fá auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem myndi renna grundvelli undir þessi mál til framtíðar.