148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans hér í dag, ekki síst um loftslagsmálin og umhverfismálin í heild sinni. Ég held að það sé alveg ljóst að loftslagsmálin eru málefni sem við verðum öll að ná góðri samstöðu um, bæði í þinginu og úti í samfélaginu. Ég fagna því að Samfylkingin sé samstarfsfús í þeim málum og hlakka til að eiga við þingmenn hennar umræðu um þau á komandi mánuðum og árum.

Til að nefna tvennt eða þrennt í því samhengi vil ég byrja á því sem forsætisráðherra nefndi áðan og verið er að vinna að í fjármálaráðuneytinu, en það er úttekt á grænum sköttum, þar með talið kolefnisgjaldinu sem var mikið hér til umræðu fyrir jólin. Þar þarf að leggja línurnar til að hægt sé að fjármagna þær aðgerðir sem ráðist verður í á næstu árum.

Í því samhengi hef ég áður nefnt í þessum ræðustól að aðgerðaáætlun er í vinnslu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem gengur þvert á öll ráðuneyti svo að segja. Þar þurfa mjög margir að koma að. Við getum nefnt dæmi eins og rafvæðingu samgangna, sem talið er að muni skila miklum árangri til móts við það markmið okkar að ná niður útblæstri gróðurhúsalofttegunda til lengri tíma í samræmi við Parísarsamkomulagið.

Ég vil síðan nefna sérstaklega það sem snýr að tækni og rannsóknum. Það þarf að auka rannsóknir til þess að geta ráðist í breytingar í atvinnuvegum, eins og í sjávarútvegi og landbúnaði.

Ég vil að lokum nefna að skipulagsmálin eru mjög mikilvæg þegar kemur að þessum þætti, loftslagsmálunum, og ég mun beita mér fyrir því í gegnum landsskipulagsstefnu að tekið verði á þeim málum.