148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er alveg sannfærður um að við getum átt alveg prýðilegt samstarf. Ég vænti töluverðs af hæstv. umhverfisráðherra. Landsskipulag er góðra gjalda vert. En það verður að vera með þeim hætti að það sé beinlínis kvöð á sveitarfélög að haga sér skikkanlega. Menn eiga ekki að geta farið með takmarkaða auðlind eins og þeim sýnist.

Hvað varðar borgarlínuna fagna ég því að taka á umræðuna. Það þarf að gera meira en það. Ég hef áhyggjur, því að hver frambjóðandinn á fætur öðrum í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni tjáir sig um borgarlínuna með þeim hætti að ég hef áhyggjur af því. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða að þyrpast hingað upp og gera grein fyrir því. Það er ekki nóg að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir skrifi ágætisgreinar. Hv. þm. Óli Björn Kárason verður að koma líka og lýsa stuðningi við borgarlínuna.