148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:58]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum borgarlínuna síðar. Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann og formann Samfylkingarinnar aðeins um grunnhugmyndir hans þegar kemur að skattstefnu Samfylkingarinnar. Að þessu sinni ætla ég aðeins að spyrja hann um veiðigjöld. Ég minnist þess ekki að hv. þingmaður hafi komið í ræðustól og rætt um tekjuöflunarkerfi ríkisins öðruvísi en að boða stöðugt hærri skattheimtu, alveg sama hvað er rætt. Látum það nú vera.

Ég ætla að spyrja hann svona almennt um stefnu hans þegar kemur að veiðigjöldum. Telur þingmaðurinn að það eigi að hámarka veiðigjöldin, hafa þau sem hæst? Og þar með sé nauðsynlegt að afnema lagaákvæði um hámarksstærð sjávarútvegsfyrirtækja, hlutdeild þeirra í heildaraflanum. Sem leiðir síðan til þess að fyrirtæki sem þurfa að standa stöðugt undir hærri veiðigjöldum verða að þjappa sér saman, fyrirtækin verða færri og færri, stærri og stærri. Er það framtíðarsýn Samfylkingarinnar og hv. þingmanns að hafa veiðigjöld með þeim hætti að það leiði til þess að sjávarútvegsfyrirtækjum fækki og þau verði risastór á íslenskan mælikvarða?