148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:01]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var merkileg ræða. Ég skal fullyrða að það mun fyrst og fremst koma niður á byggðum, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns, ef hugmyndafræði hans og stefna þegar kemur að veiðigjöldum nær fram að ganga. Það kemur ekkert á óvart að þingmaðurinn skuli tala með þessum hætti þegar hugmyndafræði hans byggir á því að ríkið sé að afsala sér einhverjum tekjum þegar skattar eru ekki hækkaðir meira en gert er eða þeir lækkaðir. Sá sem talar með þeim hætti gengur út frá því að ríkið eigi í raun allt sem einstaklingurinn aflar sér, launamaðurinn, vegna þess að það er ekki hægt að afsala sér neinu því sem maður á ekki. Hugmyndafræðin byggir á því að ríkið eigi í rauninni allt sem einstaklingurinn aflar og fyrirtækin afla. Þeirri hugmyndafræði er ég að berjast gegn. Ef það telst frjálshyggja er ég frjálshyggjumaður.