148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef ræður Vinstri grænna frá því á síðasta kjörtímabili, og jafnvel úr kosningabaráttunni, væru skoðaðar væru þær nokkuð samhljóða því sem við erum búin að tala um. Við vorum nefnilega býsna samstiga í kosningabaráttunni um hvað þyrfti að gera, það þyrfti að afla tekna til að ráðast í innviði.

Hér talar hv. þingmaður um að þau hafi bætt við 19 milljörðum. Það er alveg rétt en 21 milljarður var líka gefinn eftir frá fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar.

Nei, við höfum ekki talið þörf á því að skera niður og ég fagnaði því raunar áðan að bætt hefði verið í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og örlitlu í samgöngurnar. En betur má ef duga skal.

Aðalatriðið er að báðir þessir flokkar lögðu fram trúverðuga lausn á því fyrir kosningar hvernig hægt væri að afla tekna til að enn eina ferðina myndum við ekki skilja eftir aldraða, öryrkja, unga fólkið og fátæk börn í landinu. Við héldum satt að segja að orð myndu halda miklu lengur en það. Það væri þá miklu heiðarlegra af hv. þingmanni að segja: Sorrí, svona er málamiðlun þegar tveir mjög ólíkir flokkar þvælast inn í hjónaband saman, en við gátum ekki gert betur. Í staðinn stendur hv. þingmaður hér og ver hugmyndir og útfærslu sem er í grundvallaratriðum á skjön við það sem hún talaði um fyrir kosningar, þ.e. að afla tekna hjá þeim sem eru mjög vel aflögufærir, verja lág- og millitekjufólkið og fara núna loksins í það á toppi hagsveiflunnar að bæta kjör verst stöddu hópanna í staðinn fyrir að hleypa óróa í efnahagslífið með því að kroppa eitthvað aðeins af tekjuafgangnum.