148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Lýsing hæstv. fjármálaráðherra er alveg hárrétt þótt hann dragi ekki rétta ályktun af eigin lýsingu. Ég skal reyna að hjálpa hæstv. ráðherra að rifja upp hvernig þetta gekk fyrir sig og það er einfaldast að gera það með samanburði á annars vegar Íslandsbanka og hins vegar Arion banka.

Íslandsbanki var hluti af greiðslu Glitnis á stöðugleikaframlögunum sem hæstv. ráðherra nefndi. Það var Arion banki á vissan hátt líka sem greiðsla frá Kaupþingi. Ástæðan fyrir því að farin var önnur leið þar var sú, eins og hæstv. ráðherra væntanlega man, að hluti ríkisstjórnarinnar, hluti ráðherra ríkisstjórnarinnar, taldi einum of, eins og það var orðað, að ríkið væri með þrjá banka í fanginu samtímis. Þá var gerð málamiðlun innan stjórnarinnar sem fól það í sér að í stað þess að ríkið tæki beint við Arion banka þá héldi það á honum óbeint. Það átti að skila sambærilegri niðurstöðu.

Grundvallaratriðið í þessu, herra forseti, var að skila sambærilegri niðurstöðu svo jafnræðis væri gætt. Þannig átti, og á, Kaupþing, eða Kaupskil eða hvað það nú heitir sem heldur utan um Arion banka fyrir hönd Kaupþings, að greiða ríkinu megnið af því sem kæmi fyrir Arion banka. Sem sagt, ríkið á eiginlega Arion banka óbeint. Þess vegna er það algjörlega óásættanlegt að þessir aðilar komist upp með það að selja bankann í raun sjálfum sér á undirverði til þess að það sem komi í hlut ríkisins verði óeðlilega lágt. En það er ríkisstjórnin núna að heimila. Því var meira að segja fagnað af hæstv. fjármálaráðherra og þáverandi fjármálaráðherra þegar tilkynnt var um þetta í upphafi síðasta árs að vogunarsjóðir væru að eignast stóran hlut Arion banka með þessum hætti.

Fyrirkomulagið var þannig hannað að hægt væri að koma í veg fyrir slíkt, annars vegar með því að stjórnvöld veittu ekki leyfi og svo hins vegar í versta falli með nýtingu forkaupsréttar.