148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að ríkisstjórnin hefur stefnu í ákveðnum málum eða réttara sagt að ákveðnir flokkar ríkisstjórnarinnar, sérstaklega flokkur hv. þingmanns, hafa stefnu í ákveðnum málum. En ríkisstjórnin sem slík hefur enga sérstaka framtíðarsýn. Ekki hef ég orðið var við það að minnsta kosti.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að flokkur hans leggur, eins og nafnið gefur til kynna, mikla áherslu á umhverfismálin og spyr um stefnu míns flokks í þeim efnum. Ég get sagt hv. þingmanni það nú að ég tel að það muni koma í ljós þegar á þessu þingi að Miðflokkurinn er mesti umhverfisverndarflokkur á Íslandi. Við munum með nútímalegum tillögum í umhverfismálum draga það fram og sýna að ef menn vilja raunverulega vernda umhverfið, hvort sem er náttúra Íslands eða loftslagið, þá er Miðflokkurinn með bestu tillögurnar til þess. Þær verða vonandi ræddar á þinginu í þaula.

Hvað varðar skattahækkanir, þessa grænu skatta. Það má víst ekki tala um þessa skatta af því að þetta er grænt. Ef menn tala um velferðarskatta, eru það þá ekki skattar? Ég skil ekki alveg þessar endalausu tilraunir ríkisstjórnarinnar og reyndar annarra líka til þess að orða sig einhvern veginn frá hlutunum. Þessi grænu gjöld og skattar eiga víst að hækka enn. Hækkuðu núna síðast um síðustu áramót, m.a. með 50% hækkun kolefnisgjalds. Hvað gerir það í raun? Mun það verða til þess að fólk keyri minna þó að bensínlítrinn hækki um nokkrar krónur vegna þess að kolefnisgjald hækkaði? Nei, fólk þarf áfram að komast leiðar sinnar. Það eina sem þetta gerir er að auka útgjöld heimilanna og þar með hækka lánin, hækka verðtryggð lán á Íslandi. Þetta er dæmi um stefnu í umhverfismálum sem er ekki hugsuð til enda og leiðir til verri stöðu en til stóð að fást við.