148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri nýbreytni sem felst í þeirri umræðu sem hér fer fram. Vissulega höfum við oft, við tímamót í þingstörfunum, efnt til almennrar stjórnmálaumræðu, en það er nokkur nýbreytni hér í fyrirkomulagi og tiltölulega stutt síðan stefnuræða forsætisráðherra var flutt þannig að ég fagna því að við setjum vorþingið af stað með þessum hætti.

Það má segja að við myndun nýrrar ríkisstjórnar hafi verið lögð sérstök áhersla á að teygja sig eftir því að auka festuna í stjórnarfarinu hér á Íslandi. Með því er meðal annars verið að vísa til þess að við höfum haft kosningar of oft á undanförnum árum. Það er sömuleiðis verið að vísa til þess að við finnum öll fyrir þeirri almennu tilfinningu að regluleg uppákoma í þingstörfum eða á kjörtímabilinu hverju sinni sé ekki líkleg, eða a.m.k. að jafnaði ekki vel til þess fallin, að skila auknum árangri í þingstörfunum. Það má segja að hluti þeirra áherslna sem birtast í stjórnarsáttmálanum, og snúa að eflingu Alþingis og auknu pólitísku samráði, sé einmitt viðleitni stjórnarflokkanna til að ýta enn frekar undir þessi markmið. Hvernig til tekst er auðvitað ekki eingöngu í höndum stjórnarflokkanna. Það þarf alla að því borði til þess að vel takist til að styrkja þetta samtal um breið mál. Hér vísaði forsætisráðherra, í upphafi síns máls, m.a. til þeirra tímamóta sem fólust í fundinum sem haldinn var í morgun þar sem allir flokkar koma saman til þess einfaldlega að ræða almennt um tiltekið mál án þess að þar sé verið að reyna að leita málamiðlana milli flokkanna eins og svo oft er þegar um ákveðin stefnumál er að ræða. Ég held að það sé ákveðið framfaraskref að okkur hafi tekist jafn vel til með þann fund og raun ber vitni.

Ég ætla ekki að halda því fram að hér verði algjör straumhvörf í hlutverki stjórnarflokka og ríkisstjórnar annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. Ég held hins vegar að það megi alveg segja að við getum lagt aðeins meira á okkur til þess að bæta braginn á þingstörfunum. Ég get deilt því hér með mönnum að það er ósjaldan sem maður hefur fengið spurninguna í gegnum árin: Hvernig í ósköpunum nennirðu að standa í þessu þrasi? Hvernig í ósköpunum nennirðu að standa í því þegar umræðan fer inn á það málefnalega plan sem maður svo oft verður vitni að? Ég held að ég sé ekki einn um að hafa fengið slíka spurningu. Spurningin er bara sú hvort við getum, kannski með því að bera aðeins meiri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum, og með því hvernig menn beita orðinu héðan úr ræðustól, náð að gera umræðuna hér á þinginu aðeins áhugaverðari fyrir almenning. Og aftur að þessari umræðu sem hér á sér stað; þá erum við dálítið að brjóta upp umræðuna á Alþingi með þessum hætti. Það er nokkuð áhugavert. Það er algert grundvallaratriði að við náum að halda þannig á umræðu í þinginu og almennt á stjórnmálaumræðunni í landinu að það veki áhuga landsmanna.

Um stöðu stjórnmálanna í enn víðara samhengi en í þessu þrönga þinglega samhengi þá er ljóst að við erum hér við upphaf nokkurra tímamóta á árinu. Ég nefni þar fyrst og fremst fullveldi þjóðarinnar sem við ætlum að fagna á árinu. Mér finnst að við eigum að standa sem allra mest saman um að gera það veglega þannig að við vekjum áhuga landsmanna á málefninu og komum til skila þeim sögulegu tímamótum sem í því felast. Síðan eru aðrir stórir áfangar. Við sjáum fram á sveitarstjórnarkosningar hér innan nokkurra vikna. Það skiptir auðvitað máli að við náum að haga þingstörfunum á þann veg að sem minnst truflun verði fyrir sveitarstjórnarmálin í tengslum við kosningarnar. Hér hefur verið stillt upp starfsáætlun sem ætti að geta tryggt það að við komum aftur saman að loknum sveitarstjórnarkosningum. Annars er það kannski tilefni að minnast á, í tilefni af sveitarstjórnarkosningunum, að það er gleðiefni að sjá að sá efnahagslegi bati sem við erum að upplifa í gegnum ríkisfjármálin er greinilega líka að skila sér á sveitarstjórnarstigið.

Stórt mál á vettvangi stjórnmálanna á þessu ári eru öll vinnumarkaðstengd mál. Ríkisstjórnin hefur á sínum fyrstu dögum töluvert látið til sín taka í samskiptum við vinnumarkaðinn undir forustu forsætisráðherra sem hefur leitt marga fundi með aðilum vinnumarkaðarins, þar sem öll breiðsíðan hefur tekið þátt. Við höfum sett á dagskrá nokkur álitamál sem lengi hafa reynst nokkuð erfið í samskiptum milli vinnumarkaðsaðila og stjórnvalda, en það þýðir ekkert að líta undan, það þarf að halda áfram og reyna að takast á við slík verkefni eins og hver önnur. Ég ætla að segja það alveg eins og er að ég er ágætlega bjartsýnn á að okkur takist að höggva á vissa hnúta sem vonandi geta orðið til þess að skapa meiri sátt og meiri stöðugleika á vinnumarkaði en við höfum horft fram á á undanförnum árum þar sem mér finnst að við höfum of oft horft fram á vinnudeilur.

Á árinu heldur síðan, ef maður horfir aðeins út fyrir landsteinana, Brexit-ferlið áfram. Við Íslendingar eigum þar töluvert mikilla hagsmuna að gæta. Því er mjög vel við hæfi að utanríkisráðherra skuli hafa látið taka sérstaka skýrslu saman um helstu hagsmuni okkar Íslendinga í því efni. Ég held reyndar, þegar við horfum yfir það svið, það sem er að gerast í samskiptum einstakra Evrópuríkja, eins og Bretlands í þessu tilviki og Evrópusambandsins, og lítum síðan aftur hingað heim og skoðum hvernig við þurfum í sífellu að leita leiða til þess að aðlaga okur að kröfum Evrópusambandsins á einstökum stefnusviðum, þá gæti verið fullt tilefni fyrir okkur til þess að láta taka saman almenna skýrslu um samskipti Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu við Evrópusambandið; það hvernig samningurinn hefur þróast yfir árin, hvaða helstu álitamál hafa komið upp, hvernig á þeim hefur verið tekið hér heima, hversu vel lausnirnar hafa reynst, hvaða úrræði við höfum almennt á grundvelli samningsins til þess að bregðast við. Þá er ég að vísa til tveggja stoða kerfisins og hvernig umræðan um þau efni hefur verið annars staðar. Þetta er málefni sem varðar íslenska hagsmuni gríðarlega miklu og það geta komið fram fletir á möguleikum okkar í samskiptum við Evrópusambandið í tengslum við Brexit-ferlið sem við þurfum að vera vakandi yfir.

Almennt um stöðu efnahagsmála verð ég að segja eins og er að útlitið, ef við horfum bara á hagvísa þjóðhagsspár, er býsna gott um þessar mundir. Við sjáum í þjóðhagsyfirliti, sem fylgdi fjárlagafrumvarpinu, að því er spáð að einkaneyslan, sem fór upp um tæp 8% á síðasta ári, haldi áfram að vaxa á komandi ári, sem sýnir bættan hag heimilanna. Þó að við viljum ekki að hagvöxtur sé eingöngu drifinn áfram af aukinni einkaneyslu, þá er þetta engu að síður merki um batnandi hag landsmanna. Hér verður áfram nokkuð kraftmikill hagvöxtur, rúm 3% samkvæmt spám. Viðskiptajöfnuður þó nokkur. Þegar maður horfir til baka þá er í raun ótrúlegt hvað okkur hefur tekist að gera á sviði efnahagsmála á skömmum tíma. Við höfum töluvert mikið aukið ríkisútgjöldin til að gera betur á hinum ýmsu sviðum samfélagsins sem okkur er annt um, svo mjög að það eru fá dæmi jafn mikillar útgjaldaaukningar og við sáum fram á á síðustu tveimur árum. En það hefur tekist að gera það þó þannig að hlutfall heildarútgjalda af landsframleiðslu hefur staðið í stað eða lækkað.

Á sama tíma og útgjöldin aukast þetta mikið er töluvert mikill hagvöxtur í landinu, einkaneyslan að vaxa, eins og ég hér rakti. Seðlabankinn sér við þessar aðstæður samt sem áður tækifæri til þess að lækka vexti. Laun fara upp, launavísitalan fór upp um rétt um 7% á síðasta ári. Því er spáð að laun haldi áfram að hækka á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir allt þetta hefur verðbólga verið við og fyrir neðan viðmiðunarmörk Seðlabanka Íslands.

Þetta er alveg ótrúleg staða sem á sér fá dæmi til jafnaðar. Við (Forseti hringir.) þurfum að tryggja að í þeirri vinnu sem er fram undan, m.a. á þessu vorþingi í tengslum við fjármálaáætlun (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar til næstu ára, nýtum við þessa góðu stöðu til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Ég ætla að lokum að ítreka þakkir til (Forseti hringir.) hæstv. forseta fyrir að brydda upp á þessari nýjung, þessari almennu umræðu, þegar þing kemur saman að nýju (Forseti hringir.) eftir stutt hlé. Hér sýnist mér að vera að dragast upp ágætlega stóra myndin í stjórnmálum.