148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta nú ekki góð greining á áliti fjármálaráðs vegna framkominnar fjármálastefnu. Við fáum svo sem tækifæri til þess að ræða það frekar á morgun. Vissulega eru ábendingar í álitinu um að menn þurfi að gæta að útgjaldastiginu og vexti ríkisútgjalda. Í þeim efnum hefur flokkur hv. þingmanns verið frekar brattari gagnvart þörfinni fyrir aukin ríkisútgjöld en sá sem hér stendur.

Varðandi skattalækkanir hef ég verið mjög skýr í þeim efnum. Ég tel að það sé sanngjarnt að draga úr tekjuskattinum. Ég tel að um 35% tekjuskattur til viðbótar persónuafslætti sé ágætlega sanngjarnt hlutfall á öll venjuleg laun og að viðmiðunarmörkin á milli neðra þrepsins og efra þrepsins séu alveg ágætlega stillt í dag, þau mættu hækka eitthvað. En tímasetningar skipta hér öllu. (Forseti hringir.) Um það höfum við verið alveg skýr í bæði stjórnarsáttmálanum og allri umræðu. (Forseti hringir.) Fjármálaráð setur fram getsakir þegar kemur að lækkun tekjuskatts, enda sést það mjög greinilega (Forseti hringir.) á textanum.