148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:55]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að bregðast við þenslu er hægt að fara tvær meginleiðir. Við getum dregið saman útgjöldin eða við getum aukið tekjurnar. Ríkisstjórnin gerir hvorugt. Því er augljóst að vandanum er ýtt á heimilin með hærri vöxtum og/eða með verri þjónustu.

Fyrir nokkrum vikum ætlaði enginn stjórnmálaflokkur að draga saman ríkisútgjöldin til að bregðast við þenslunni, þar á meðal flokkur hæstv. fjármálaráðherra, sem talaði beinlínis um 100 milljarða kr. innspýtingu í innviðina. Eftir stendur að hægt er að bregðast við þenslunni með því að auka tekjur ríkisins. Sú leið hefur einnig þann kost að þá getum við fjármagnað kosningaloforðin. En í nýsamþykktum fjárlögum og í stjórnarsáttmálanum er ekki talað um að fara þá leið. Í umræðunni núna er jafnvel talað um að lækka veiðileyfagjöldin. Ég held að sú umræða sýni vel hið sanna og rétta andlit ríkisstjórnarinnar.

Það er augljóst að í munni hæstv. fjármálaráðherra er orðið stöðugleiki bara frasi enda sýna verkin annað. Þar virðast hagsmunir stórútgerðarinnar (Forseti hringir.) og ríkustu 5% alltaf vera í forgrunni. Á meðan þurfa (Forseti hringir.) 95% landsmanna að borga brúsann. Það er mjög gagnrýnisvert.