148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég hef ekki þá skoðun að það sé hættulegt að skilja eftir svigrúm fyrir launþega, heimili eða atvinnulíf og það sé líklegra til að skila meiri ávinningi fyrir heildina að taka slíka fjármuni úr umferð til ríkisins. Ég hef nú ekki þá sýn. Ég held hins vegar að þetta samspil skipti gríðarlega miklu máli. Það er þetta samspil sem ég var að tala um á skattadeginum sem hv. þingmaður vísaði til, og þá var ég eingöngu að tala um það að ef menn eru að tala um skattalækkanir til að auka kaupmátt vakti ég athygli á því að það hefur ekki verið mikill skortur á kaupmáttaraukningu á undanförnum tveimur árum. Hún hefur verið gríðarleg. Hún hefur verið að setja met sögulega séð og við höfum náð mesta kaupmætti launa sem við höfum séð og svoleiðis margfalt meiri kaupmáttaraukningu en í nágrannaríkjunum eða OECD-löndunum. Margfalt meiri. Þetta er birt ágætlega myndrænt með nýja fjárlagafrumvarpinu.

Hins vegar talaði ég á sama tíma fyrir því almennt að við ættum að lækka skatta og lagði áherslu á það að slíkar aðgerðir ætti að tímasetja (Forseti hringir.) vel og þær þyrftu að kallast á við niðurstöðu á vinnumarkaði og vonandi gætum við með slíkum aðgerðum stutt við farsæla niðurstöðu á vinnumarkaði.