148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Þau endurspegluðu má segja akkúrat það sem ég hafði áhyggjur af að skattaafstaða ríkisstjórnarinnar væri fyrst og fremst orðin einhver tæknileg útfærsla, það væri engin sérstök stefna eða sýn í þeim efnum. Staðreyndin er sú að Ísland er með hvað hæstu skattaálögur innan OECD-ríkjanna þegar tekið er tillit til þess hvernig lífeyrissjóðamálum er fyrirkomið hér. Við skattalækkun, hvort sem er til handa heimilum eða fyrirtækjum, verða alltaf einhver tæknileg útfærsluatriði í kjarasamningum aðila og þá eru líkur til þess að niðurstaða mögulegra skattalækkana verði alltaf á svipuðu róli við það sem niðurstaðan hefur orðið hvað varðar lækkun tryggingagjalds á fyrirtæki í landinu á undanförnum árum, sem er náttúrlega á þeim nótum, eins og ég hef margfarið yfir í ræðum, algjörlega úr samhengi við þann (Forseti hringir.) kostnað sem tryggingagjaldinu er ætlað að standa undir.

En ég lýsi yfir áhyggjum af því að horft sé á þetta sem tæknilegt útfærsluefni (Forseti hringir.) og alltaf þurfi að miða allar dagsetningar við það hvernig kjarasamningum er háttað. Það á að vera hægt að leggja þá línu að lækka þurfi skatta á heimili og fyrirtæki.