148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Smáathugasemd. Kosningar of oft og hvernig nennir þú að standa í þessu þrasi? Ráðherra ætti kannski að íhuga hvort góð ástæða sé fyrir þrasinu, því að það eru nefnilega ekki allir sem lenda í því. Það væri hægt að axla smáábyrgð á of tíðum kosningum. En þá eru það spurningarnar.

Ég ætla að byrja á einni. Vegna laga um opinber fjármál þar sem gagnsæi er grunngildi, getur ráðherra tekið undir að fjármál séu almennt séð ógagnsæ hvað varðar grunnrekstur ríkisins? Fjárlagaumræðan snýst aðallega um viðbætur, styrki og skatta en að mjög litlu leyti um aðhald vegna ramma fyrra árs sem fjárlagafrumvarpið byggir ofan á, sem er langstærsti hluti fjárlaganna. Því vil ég spyrja: Getur ráðherra tekið undir að fjárlög séu ógagnsæ hvað varðar grunnrekstur ríkisins? Og í framhaldi: Gæti ráðherra tekið undir að hægt væri að laga þetta vandamál með því að gefa út ákveðin grunnrekstrarfjárlög á hverju ári, t.d. að vori? Grunnfjárlög myndu innihalda upplýsingar um þann grunnkostnað sem þarf til þess að standa undir rekstri ríkisins, svo sem launabundin útgjöld og annað því um líkt. Þannig væri hægt að ræða þann grunn þar sem aðhald hefur áhrif og (Forseti hringir.) gefa þeim sem hafa ekki aðgang tækifæri til að byggja upp eigin fjárlög.