148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leggja mat mitt á hið nýja form sem við erum að prófa þótt mér finnist það ágætt í bili. Ég ætla að reyna að komast yfir nokkur málefni. Ég verð að segja eins og er að mig langaði mjög mikið að halda jákvæða ræðu og tala mikið um framtíðina og tækifærin sem þar er að finna, sem nóg er af og gott betur. En ég álít það skyldu mína að tala aðeins um mál sem í daglegu tali er kallað Landsréttarmálið. Hefjast þá leiðindin.

Þann 16. maí á síðasta ári sendi sérfræðingur hjá kjara- og mannauðssýslu ríkisins fjármálaráðherra póst með viðvörun til lögfræðings hjá dómsmálaráðuneytinu og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis. Segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Ef ráðherra ætlar að leggja þetta breytt fyrir þingið, þá þarf ráðherra að leggja sjálfstætt mat á alla umsækjendur, út frá þeim sjónarmiðum sem hún leggur til grundvallar. Í því gæti falist að kalla eftir upplýsingum frá öllum umsækjendum, auk þess að upplýsa þá.“

Þetta er skrifað 16. maí.

26. maí berst bréf til dómsmálaráðherra sjálfs frá lögfræðingi í dómsmálaráðuneytinu þar sem ábendingin er ítrekuð. 28. maí sendir sérfræðingur hjá kjara- og mannauðssýslu fjármálaráðuneytisins aftur bréf til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og lögfræðings hjá forsætisráðuneyti þar sem það er ítrekað. 29. maí, eftir að þetta á sér stað, afhendir dómsmálaráðherra forseta Alþingis bréf með tillögum sínum sem og rökstuðningi í fylgiskjali um það hverjir skuli valdir á hið nýja dómstig, Landsrétt, hið nýja, mikilvæga dómstig, sem allir hér inni voru sammála um að setja bæri fót á sínum tíma og töldu mikilvægt það að væri til staðar.

31. maí sendi Lögmannafélag Íslands Alþingi umsögn með sömu viðvörunarorðum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Lögmannafélags Íslands telur þessa embættisfærslu síst til þess fallna að skapa nýjum dómstól það traust og veganesti sem nauðsynleg er í lýðræðisþjóðfélagi.“

31. maí kemur fram bókun frá hv. þingmönnum Jóni Þór Ólafssyni og Birgittu Jónsdóttur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem viðvörunarorð þeirra sérfræðinga sem komu fyrir fundinn eru ítrekuð. Og já, þá var búið að tala um Hæstaréttarfordæmi í máli nr. 412/2010. Þann 31. maí, sama dag, sendir minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá sér álit þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds, þ.e. þess að ekki er sýnt að ráðherra hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum, að ráðherra hafi ekki virt andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum, að ekki reyndist unnt að afla nægjanlegra sérfræðiálita í málinu, að þinginu og nefndinni var gefinn óhóflega skammur tími til skoðunar málsins, að ekki var vilji til að fresta afgreiðslu málsins til að veita ráðherra tækifæri til að bæta úr annmörkum og tryggja vandaða málsmeðferð, að um er að ræða grundvallarmál sem varðar skipun nýs dómstóls sem er falið mikilvægt hlutverk í dómskerfi landsins og markar tímamót í réttarsögunni, að nauðsynlegt er að sátt ríki um skipun dómara við Landsrétt og skipun þeirra sé hafin yfir allan vafa, samþykkir Alþingi að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta er sem sé dagskrártillaga frá hv. þáverandi hv. þingmönnum Katrínu Jakobsdóttur, Birgittu Jónsdóttur, Jóni Þór Ólafssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni.

1. júní: Alþingi greiðir atkvæði og fellir tillöguna með 31 atkvæði gegn 30. Sama dag er tillaga dómsmálaráðherra samþykkt með 31 atkvæði gegn 22, átta sátu hjá.

19. desember. Dómur Hæstaréttar fellur, lokaorðin í málinu eru þau að viðvörunarorðin voru rétt. Viðvörunarorðin voru rétt sem birtust fyrst 16. maí, sem voru ítrekuð af sérfræðingum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og sem haldið var uppi hér.

Mér þykir leitt að þurfa að telja hér upp nokkrar staðreyndir. Staðreynd nr. 1 er að ráðherrann braut stjórnsýslulög við gerð tillögu sinnar til Alþingis. Það er óumdeilt. Nr. 2: Það var einróma álit þeirra sem vöruðu við þessu. Þeir sögðu að þetta myndi grafa undan trausti til Landsréttar, til dómskerfisins okkar. Nr. 3: Ráðherrann var varaður við fyrir fram af ráðuneytisstarfsfólki. Nr. 4: Sérfræðingar í nefnd vöruðu við þessu áður en þingið samþykkti það. Og nr. 5: Þingmenn vöruðu við þessu og lögðu til lausnir, lögðu fram hugmynd um meiri tíma. Þá var mánuður til stefnu áður en skipa þurfti dómara í Landsrétt. Hv. þingmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem og ráðherrann sjálfur, hefðu þurft að starfa í einn mánuð í viðbót og hæstv. ráðherra hefði einfaldlega getað búið til rökstuðning, hún hefði einfaldlega getað sinnt þeirri skyldu sem búið var að benda á ítrekað úr mörgum áttum að hún ætti að sinna. Hvers vegna gerði hæstv. ráðherra það ekki? Var hæstv. ráðherra sama um traust til dómstóla landsins? Eða treysti hún sér ekki til þess að búa til slíkan rökstuðning sem samræmdist lögum?

Nýr Landsréttur var skipaður með lögbroti hæstv. dómsmálaráðherra þrátt fyrir viðvörunarorð, með þingheim klofinn í herðar niður. Það var samþykkt með minna en helmingi atkvæða á Alþingi, þótt ég verði að nefna að það var ástæða fyrir því. Tveir þingmenn viku úr sal vegna tengsla.

Hæstv. dómsmálaráðherra ætti að sýna embættinu þá virðingu að segja af sér, að sjálfsögðu, og dirfist enginn að hneykslast. Við erum að tala um dómskerfið okkar.

Hér fyrr í dag var nefnt að ráðherrar hafi jú brotið lög einhvern tíma áður. Vissulega. En væri ekki fínt ef hefðin væri sú að þá segðu þeir af sér ráðherraembætti? Væri það ekki bara fínt? Þá væri það á hreinu? Bara hugmynd. Pælum í því seinna. En fyrir utan það er kannski ekki alveg hægt að bera saman einhver lögbrot annars vegar og hins vegar það að grafa undan trausti á dómskerfi okkar, á nýtt dómstig. Það er ekki sambærilegt.

Nú hef ég eytt þorra ræðutíma míns í þetta en eftir stendur þetta, og málið fer ekki neitt, fullyrði ég. En mig langar til að fara aðeins yfir á léttari nótur og fjalla um upplýsinga- og tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Áhugi á þessum málum hefur aukist aftur, sem er gott. Nýtt frumvarp um persónuvernd er að koma í þingið, sem er mjög spennandi og gott. Ég vil þá minna á þingsályktun frá 2010, sem lögð var fram af þáverandi hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þegar tillagan var samþykkt skapaði hún okkur Íslendingum mikinn og góðan orðstír á erlendri grundu. Því miður er sá góði orðstír óverðskuldaður akkúrat núna vegna þess að erlendis var gert ráð fyrir að samþykkt tillögunnar þýddi að verkefninu væri lokið og að hér væri besta tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi og friðhelgi einkalífsins í heimi. Svo er ekki enn þá.

Við höfum enn tækifæri. Það er orðið svolítið síðan tillagan var samþykkt en við höfum enn þá tækifæri. Ísland er enn kjörið fyrir atvinnutæki framtíðarinnar í upplýsingatækni. Hér er hátt þekkingarstig, rótgróinn þekkingariðnaður, mjög framsækin tæknimenning, ódýr og að mestu umhverfisvæn orka. Ég spyr: Hvað ef við hefðum bestu lagaumgjörðina ofan á allt það? Því að upplýsingatæknin er ekki lengur bara hugbúnaðargerð og gagnaver, hún snýr að flestum okkar mikilvægustu réttindum. Mér finnst skemmtilegast — og leiðinlegast — að benda á snjallsímann, sem er tvíeggjað sverð. Annars vegar gerir hann mönnum auðveldara að brjóta á öðrum, taka myndir af fólki þegar það vill ekki, jafnvel að taka upp hljóð þegar það vill það ekki, njósna um fólk, það er auðveldara en áður með snjallsíma. Því miður. En það er líka auðveldara að verja réttindi sín, segjum gagnvart lögreglu. Ef lögregla fer að haga sér ósæmilega er auðveldara að fylgjast með því og búa til sönnunargögn þegar fólk verður vitni að glæpum. Snjallsímar eru tvíeggjuð sverð og varða réttindi okkar á mjög djúpstæðan hátt. Og við eigum að vera með bestu löggjöfina í kringum allt sem varðar upplýsingatækni.

Síðast en ekki síst fagna ég viðleitni nýs forsætisráðherra til að halda áfram stjórnarskrármálinu. Það er orðið frekar langt síðan við stofnuðum lýðveldi, svona að nafninu til og að ýmsu öðru leyti, en ekki að fullu leyti að mínu mati. Þá vil ég árétta að það skiptir öllu máli að vinnan sé gegnsæ. Það voru mistök hjá þáverandi hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktssyni að gefa ekki strax út hugmyndir sínar um hvernig hann hefði hugsað sér að vinna það mál. En hæstv. núverandi forsætisráðherra hefur lært af því, sem betur fer, og verður það birt seinna í dag. Það er mikið gleðiefni. Það voru mistök að hafa ekki fundi stjórnarskrárnefndarinnar opna frá 2013–2016. Gríðarleg mistök. Við megum ekki endurtaka þau. En stærstu mistökin eru að nýta ekki það sem fyrir er, sem er að sjálfsögðu frumvarp Stjórnlagaráðs. Eina ástæðan sem ég get ímyndað mér fyrir því að hafa fundina lokaða er ef einhverjir gestir óska eftir því. Að sjálfsögðu eiga þessir fundir að vera opnir að jafnaði, eins og reyndar aðrir fundir. Meira um það síðar.