148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér líst sem byggðamálaráðherra ákaflega vel á hugmyndina og vil svo sem halda því fram að það sé það sem við lögðum til í kosningabaráttunni. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er fjallað um byggðamál í hverjum einasta kafla. Ég nefndi í inngangi mínum að nauðsynlegt væri til að mynda er varðar þá málaflokka sem heyra undir ráðuneyti mitt, þ.e. fjarskiptamálin, samgöngumálin og byggðamálin, að samþætta þá. Það var samþykkt á þingi fyrir nokkrum misserum að fjárlögin ættu að fara í skoðun hjá Byggðastofnun til að kanna áhrif þeirra á byggðir landsins. Ég held að þetta sé liður í því. Í tíð ríkisstjórnar á árunum 2013–2016 var búið til stýrinet Stjórnarráðsins sem virkaði á margan hátt ágætlega út á við en var kannski skortur á að virkaði inn á við, inn í ráðuneytin, þannig að tryggt væri að menn væru alltaf með réttu byggðagleraugun þegar verið væri að fjalla um einstök málefni. Ég held að (Forseti hringir.) við getum gert betur og það er meiningin að reyna það.