148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þensluáhrifaumræðuna sem ég hef aðeins heyrt í fjölmiðlum veit ég ekki hvort hún er sprottin upp úr því sem sá ráðherra sem hér stendur sagði, að við þyrftum að horfa til þensluáhrifa þegar við værum m.a. að forgangsraða á næstu árum. Það var meira sagt í því skyni að það væri nokkuð augljóst að þótt þörf væri fyrir mjög fjárfrekar framkvæmdir á suðvesturhorninu, kannski 100–200 milljarða, væru líka verkefni hringinn í kringum landið. Ég hef minni áhyggjur af því að verkefni sem eru lengra frá þenslusvæðunum hafi áhrif, svo að það sé sagt.

Varðandi Teigsskóg, það verkefni, er það í dag hjá sveitarfélaginu, bíður þar afgreiðslu, breytingar á aðalskipulagi og svo hugsanlegs framkvæmdaleyfis. En hafi mátt skilja orð mín þannig að samgönguáætlun væri að koma inn á þing á næstu vikum vil ég leiðrétta það. Ég á ekki von á (Forseti hringir.) að samgönguáætlun náist fyrr en hugsanlega í haust en í fyrsta lagi á síðustu vikum þingsins í vor og myndi þá væntanlega ekki fá tíma til afgreiðslu.