148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þjóðvegakerfi Íslands er bútasaumur. Það eru bútasaumaðar slysagildrur úti um allt land. En verstu kaflarnir eru á Reykjanesbraut frá Áslandi og suður fyrir Straumsvík. Þar á enn eftir að tvöfalda veginn og eins veginn frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum.

Er það á dagskrá á næstunni? Hvenær þá? Hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að gera það? Þetta á ekki að kosta neitt rosalega mikið miðað við hvað það kostar að gera hlutina. Þetta eru um 2 milljarðar á Reykjanesbrautinni í Hafnarfirði. Ég veit ekki hversu mikið það myndi kosta að laga veginn á Kjalarnesi. En hvað þarf að gerast á þessum stöðum áður en það verður gert? Þarna fara tugþúsundir bíla (Forseti hringir.) um á hverjum einasta degi.