148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir tvo vegarkafla sem eru vissulega mjög umferðarþungir og þar sem slys verða því miður allt of oft. Ég held reyndar að úrbætur á þessum köflum kalli nú á umtalsvert hærri fjárhæð en þingmaðurinn nefndi. Það eru einhverjar úrbætur tilteknar í núgildandi samgönguáætlun. Eitthvað af þeim hefur verið fjármagnað og kemur til framkvæmda á þessu ári. En ekki á að klára Reykjanesbrautina eða Vesturlandsveginn upp í Hvalfjörð, hvað þá að taka Suðurlandsveginn og mjög marga vegi víða á Íslandi þar sem umferðin er löngu vaxin fram úr burðargetu vegakerfisins á viðkomandi svæði. Við horfum fram á mjög stórt verkefni. Við þurfum að fá verulega aukna fjármuni frá Alþingi til að geta farið í það, til að geta forgangsraðað og sett upp áætlanir bæði til skamms tíma og líka til lengri tíma um hvernig við ætlum að ljúka þessu þannig (Forseti hringir.) að ekki sé um bútasaumsteppi að ræða heldur heildstæðar samgöngur.