148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er reyndar rétt hjá hv. þingmanni að ég hef ekki séð þessa ályktun og þekki þar af leiðandi ekki forsendur fyrir henni. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á eflingu Alþingis, aukið samráð. Þó nokkrir hlutir hafa verið nefndir í umræðunni í dag þar sem við erum að vinna að nákvæmlega þeim þáttum, að eiga samtalið innan þingsins við alla flokka um stefnumarkandi mál inn í framtíðina. Ég tel alltaf til bóta, alveg sama hvar unnið er, hvort sem það er í landbúnaðarmálum eða öðrum málum, að menn eigi samtal og ekki síst við unga fólkið. Það er rétt sem hv. þingmaður hafði eftir mér úr ræðu minni að það er einfaldlega þannig í hinum stóra heimi, sem alltaf verður minni og minni og með betri og betri menntun fyrir unga fólkið — sem er eitt af því frábæra við Ísland, að við getum menntað unga fólkið vel — að fólk hefur aukið val um það hvar það vill setja sig niður í framtíðinni. Þess vegna þurfum við að gæta að samkeppnishæfni Íslands (Forseti hringir.) á öllum sviðum, þannig að unga fólkið velji að búa á Íslandi.