148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra, takk enn og aftur fyrir andsvarið. Ég átta mig ekki á því hvers vegna við getum ekki sagt beint út hvað við getum gert akkúrat núna, strax. Heildstætt, allt í lagi. Staðreyndin er sú að þegar ráðherra talar um að safna saman gögnum og fá heildstæðar upplýsingar og annað slíkt þá eru 24.000 Íslendingar skráðir inn í gagnagrunn SÁÁ. Yfir 30% af þeim sem deyja á hverju ári er fólk sem þegar er í gagnagrunni SÁÁ, fólk sem þeir vita af og fólk sem þeir hafa kallað eftir að taka utan um og hjálpa strax, svo framarlega sem þeir einstaklingar vilja fá hjálp.

Ég segi: Samvinna, samvinna og aftur samvinna. Það myndi breyta ýmsu og auðvitað snýst þetta um fjármagn.

Staðreyndin er líka sú að þau bráðatilfelli sem koma inn á Landspítala – háskólasjúkrahús vegna fíknivanda fara beinustu leið upp á Vog. Það er kannski líka spurning um að reyna að tengja saman þann fagþátt sem felst annars vegar í því að taka utan um fíkniefnavandann og fíklana okkar og reyna að leiðbeina þeim og hjálpa þeim út í lífið á ný og hins vegar Landspítala – háskólasjúkrahús.

Þegar við tölum um að gera eitthvað heildstætt og byggja á einhverju sterku skulum við a.m.k. nota það sem við höfum fyrir og skoða hvað við getum gert til þess að gera það betra, bæta það og gera það strax.