148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:16]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir góða ræðu og þó að hún væri dramatísk þá fjallaði hún um raunverulegan vanda.

Ég hjó eftir því að hún sagðist hafa farið, hún og hennar flokkur, í heimsókn upp á Sjúkrahúsið Vog. Við erum einmitt á leiðinni þangað bráðum í mínum flokki til að kynnast þeirri starfsemi og fá yfirferð yfir hana.

Þetta er gríðarlegur vandi. Þingmaðurinn kom inn á fátækt versus alkóhólisma og fíkniefnavandamál. Nú er það svo að áfengissýki eða alkóhólismi fer ekki í manngreinarálit þannig að það eru ekki bara fátæklingar eða fátækt fólk sem verður fyrir þeirri sorg, það fer ekki í manngreinarálit.

Húsnæðisvandi útigangsmanna var í fréttunum um daginn. Flestallir útigangsmenn og -konur eiga við alkóhólisma að glíma. Ég gladdist einmitt yfir því að heilbrigðisráðherra var hérna í salnum vegna þess að ég lagði fram skriflega fyrirspurn um Sjúkrahúsið Vog og þingmaðurinn kom einmitt inn á Sjúkrahúsið Vog, að þar væru 350 á biðlista. Sjúkrahúsið Vogur varð fyrir fjárskerðingu, það var niðurskurður hjá ríkisstjórn sem var við lýði 1995 og þá var skorið niður til meðferðarmála. Síðan hefur ekkert verið bætt í það.(Forseti hringir.) Tíminn er allt of fljótur að líða.

Ég gleðst mikið yfir því að við erum á sama stað og hv. þingmaður á bandamann í mér. (Forseti hringir.) Ég mun fara betur yfir þetta í síðara andsvari.