148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð nú að byrja á því að segja að hv. þingmaður hefur kannski misskilið mig ef hann hefur skilið það þannig að ég hafi talað um að það væru bara fátæklingar og fátækt fólk sem ætti við fíknivanda að stríða. Ég nefndi einmitt að sá vandi spyrði hvorki um stétt né stöðu. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það er meiri tilhneiging til þess, þegar einstaklingurinn hefur ekki að neinu að hverfa og á hvergi höfði sínu að halla, að hann leiðist út af hinni svokölluðu réttu braut.

Ég vona að þið upplifið sömu innspýtinguna og við þegar við heimsóttum Vík og Vog, en það breytir ekki þeirri staðreynd að ég þekki vel til þessarar starfsemi og þekki marga sem hafa fengið hjá þeim hjálp. Ég vona að þeir verði miklu, miklu fleiri.