148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta Alþingis fyrir þessa áhugaverðu tilraun. Ég er búin að vera hér nokkuð lengi, næstlengst á eftir hæstv. forseta, og ég held að þetta sé áhugaverð tilraun sem við eigum að þróa áfram til þess að efla hina pólitísku umræðu. Síðan getum við talað um það hvernig flokkarnir raðast, lengd andsvara o.s.frv. Ég held að þetta sé merkileg tilraun sem við eigum að halda áfram að þróa og ég hvet bæði forseta og þingflokksformenn til þess að gera það, þetta verði gert reglulega og við verðum í ákveðinni nýsköpun hér á þinginu.

Í morgun var ég á fundi stjórnmálaflokkanna um #metoo. Það var gott að vera á þessum fundi. Þetta var líka merkilegur fundur fyrir margra hluta sakir þar sem við í forystu stjórnmálaflokkanna ásamt öðrum reynum að taka höndum saman. Þrátt fyrir að vera ólík eins og hæstv. forsætisráðherra sagði réttilega og úr ólíkum flokkum þá erum við samt að reyna að leita leiða saman til þess að berjast gegn þessu sem hefur viðgengist allt of mikið í skugga valdsins. Ég bind vonir við það að eitthvað meira verði úr því en bara fundir og orð. Þær tillögur sem m.a. ríkisstjórnin hefur lagt fram eru allrar athygli verðar. Þá skiptir máli að við veitum þolendum kynferðisbrota öryggi. Þau finni að þau eru ekki ein þarna úti og að tíminn, sem hefur verið allt of langur, verði styttri, viðbrögðin verði fljótari, samfélagið bregðist við og að gerandinn sjálfur verði afhjúpaður og geti ekki lengur þrifist í skugga valdsins.

#metoo dregur svolítið fram út af hverju við erum í stjórnmálum. Fyrir hverja erum við í stjórnmálum? Þannig getum við virkjað stjórnmálin. Jafn átakanlegt og þetta er, málin sem tengjast #metoo, þá er í raun ákveðin fegurð samt í stjórnmálunum þegar við reynum saman að ýta hlutunum áfram til þess að breyta og gera hlutina mannlegri og mennskari í íslensku samfélagi.

Ég er eldri en tvævetur, eins og ég gat um áðan, í stjórnmálum og hef upplifað ýmislegt. Reynslan er ómetanleg. Við höfum öll gert mistök. Við eigum að læra af þeim, ekki síst sú sem hér stendur hefur og ég hef reynt að gera það. Við höfum tekið slagi. Ég hef tekið slagi, marga mjög brýna, aðra algjörlega óþarfa, komist upp á kant við hina og þessa, stundum leitt, stundum ekki. Stundum þurfti maður að fara í ákveðna slagi.

Hvernig tökum við þá allt þetta áfram? Getum við sagt hvernig við ætlum að breyta stjórnmálunum? Þá held ég að sé þýðingarmikið og ég bind enn þá vonir við — þetta er ágætur dagur því að í hádeginu boðaði forsætisráðherra líka fund um stjórnarskrána — og ég bind vonir við það að við förum upp úr þeim skotgröfum sem hafa verið í því máli. Ertu með eða á móti breytingum á stjórnarskránni? Ertu með eða á móti landsbyggðinni? Ertu höfuðborgarbúi eða ekki? Ertu með eða á móti borgarlínu? Ég veit ekki alveg hvar Sjálfstæðisflokkurinn er að fara þangað, en ertu með eða á móti henni? Getum við ekki aðeins tekið þetta lengra og reynt að byggja á upplýsingum, samtölum, og farið lengra með þau mál sem skipta m.a. máli fyrir framtíðina?

Síðan er okkur á þinginu haldið við efnið af hinum ólíku hagsmunahópum, alls konar hagsmunahópum. Það er mjög mikilvægt að við hlustum á þessa hagsmunahópa, forystumenn þeirra sem og einstaklinga sem hafa sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar. Við eigum ekki að setja okkur á þann stall að þykjast vita eða skilja betur hvernig gangverkið virkar, en við verðum samt líka að þora að greina á milli þess hvenær slík hagsmunaöfl eru að berjast fyrir eðlilegum og réttlátum breytingum í þágu alls samfélagsins þar sem almannahagsmunir eru teknir framar sérhagsmunum og hvenær þessi hagsmunaöfl eru farin yfir línuna og byrja að rugga m.a. lýðræðissamfélagi. Af hverju dreg ég þetta fram? Það er m.a. út af því hvernig ég upplifði síðustu kosningar þar sem maður sá fjársterka aðila ýta af stað áróðurssíðum, mjög ógagnsætt hver fjármagnar þær, og hvernig reynt var markvisst að breyta niðurstöðum kosninga. Það er vandamál og viðfangsefni sem við á þingi þurfum saman að takast á við því að ég mun koma fram með skýrslu til þess að fara yfir þetta. Það verður líka fróðlegt að fylgjast með því hvaða flokkar muni styðja það, hvaða flokkar muni styðja það að þessar rannsóknir fari fram. Það eru sveitarstjórnarkosningar fram undan og menn eru farnir aftur af stað með þennan ógagnsæja, lymskufulla áróður.

Það eru ýmsar áskoranir sem bíða okkar. Ég er sannfærð um að leiðarstef okkar í Viðreisn, frjálslyndi, alþjóðahyggja, jafnrétti, samkeppni, samkennd, frelsi, munu stuðla að því að almannahagsmunir vegi þyngra en sérhagsmunir. Þannig munum við ýta sérhagsmunum út af borðinu, leyndarhyggjunni út af borðinu. Það er þannig sem ég horfi á áskoranir okkar í Viðreisn og hvernig við ætlum að halda ríkisstjórninni við efnið. Það þarf nefnilega að halda henni við efnið. Við sjáum hvernig það skiptir máli.

Við styðjum öll uppbyggingu innviða og verkefni sem skipta máli, að efla heilbrigðiskerfið o.s.frv. En við megum ekki loka á breytingar og sérstaklega ekki þegar eru núna 25 ár liðin frá því við samþykktum EES-samninginn. Það verður að halda áfram að hafa þor og dug og kjark til þess að horfa inn í framtíðina. Það þýðir ekki að setja pottlokið ofan á og ræða ekki breytingar á peningamálastefnu. Ég er hrædd um að í niðurstöðu nefndarinnar, en hún mun birta hana á næstu vikum, finnist lægsti samnefnari, þ.e. að það verði áfram króna að mjög lítið breyttum breytanda. Það þýðir að stórfyrirtækin geta haldið áfram að gera upp í evrum og dollurum meðan íslensk heimili verða áfram sett á vagn rússibanans með tjóni fyrir íslensk heimili og almenning. Þessu munum við halda áfram að berjast gegn og halda ríkisstjórninni við efnið.

Þá eru það landbúnaðarmálin. Hæstv. landbúnaðarráðherra byrjaði á því að breyta endurskoðunarnefndinni. Gott og vel. Ekkert mál að breyta endurskoðunarnefndinni, ég gerði það, en með það í huga að víkka hana út, fá neytendur, fá unga bændur, ekki bara afurðastöðvarnar og bændasamtökin að borðinu, heldur fá fleiri og fá víðari sýn. En nú á að þrengja hana. Og það er ekki bara ég sem á að segja þetta heldur ungir bændur líka sem gagnrýna hæstv. landbúnaðarráðherra markvisst. Ég hefði kannski ekki undrast þetta hefði það komið frá Framsóknarflokknum, en það er merkilegt, og ég hef sagt það áður, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórn með Framsóknarflokknum þá er eins og Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að verða Framsóknarflokkurinn líka. (Gripið fram í.) Sem er eflaust gott að mati hæstv. formanns Framsóknarflokksins. Þetta er eitt.

Síðan er annað. Fyrsta mál sem maður sér á þinginu af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra er að hann dregur til baka frumvarp sem afnemur sérreglur og ýtir undir heilbrigða samkeppni. Ég segi enn og aftur: Það hefði ekki komið mér á óvart ef ráðherrann hefði verið frá Framsóknarflokknum eða Vinstri grænum, en þetta kemur frá flokki sem kennir sig við frelsi, sem kennir sig við samkeppni. En það á að draga úr henni. Hverra erinda er þá hæstv. landbúnaðarráðherra að ganga þegar verið er að ýta undir sérreglur á kostnað heilbrigðrar samkeppni? Við vitum alveg hverjir munu borga brúsann, hverjir mæta afgangi. Það eru neytendur og það eru smærri framleiðendur sem eru að reyna að festa sig í sessi innan mjólkurframleiðslunnar.

Eigum við að byrja að tala um sjávarútvegsmálin? Ég á bara eina og hálfa mínútu eftir. Förum bara í sérstaka umræðu um það, hæstv. forseti. Það verður líka fróðlegt að vita hvað gerist þar og ég hvet hæstv. forsætisráðherra að vera dugleg við verkstjórn þegar kemur að sjávarútvegsmálum. Það voru allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn tilbúnir til að ljá máls á tímabundnum samningum í þverpólitískri nefnd allra flokka á þingi fyrir jól. Einn flokkur var á móti, Sjálfstæðisflokkurinn, sá sem heldur núna um taumana í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta vekur tortryggni. Þetta eru áskoranir sem við í Viðreisn munum taka og munum halda ríkisstjórninni við efnið. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Það vekur umhugsun og ákveðnar áhyggjur að heyra að það á í rauninni að mínu mati eftir umræðuna í dag, sem ég þakka aftur fyrir, að bíða eftir breytingum. Tilfinningin er sú að það eigi að bíða eftir breytingum á stjórnarskránni, auðlindaákvæðinu, sem ég vona að allir flokkar séu sammála um að við setjum inn í stjórnarskrá næst. Auðlindir þjóðarinnar, ekki síst í sjónum, hafinu í kringum landið, eru sameign þjóðarinnar. Ef það á að bíða með sáttina um sjávarútveginn þangað til stjórnarskrárákvæðið er samþykkt, að bíða í þrjú, fjögur ár í viðbót, þá verður það engin sátt. Það er búið að gefa tóninn um að það eigi að lækka veiðigjöldin á útgerðina. Veiðigjöld eru gjöld fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind, auðlind (Forseti hringir.) íslensku þjóðarinnar. Það verður ekki gefið eftir í þeirri baráttu og við munum halda ríkisstjórninni við efnið.