148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held einmitt að þessi ræða formanns Framsóknarflokksins og hæstv. samgönguráðherra hafi undirstrikað að það er bara ósköp einfalt að afnema þessa sérreglu. Af hverju að viðhalda þá sérreglunni? Af hverju? Af hverju er verið að viðhalda sérreglunni? Þess sést hvergi staður að hagræðingin hafi verið sem skyldi, m.a. í tölum Hagstofunnar. Hvað er það sem við sáum m.a. í umræðunni þegar við endurskipuðum verðlagsnefnd búvara, af hverju var það viðkvæmt? Gat það verið viðkvæmt af því að við erum að draga fram upplýsingar, auka gegnsæi innan landbúnaðarkerfisins? Það er eitt af því sem kemur fram hjá mér þegar ég hugsa um þann tíma sem ég var í ráðuneytinu, að gegnsæið er allt, allt of lítið. Ekki bara það að kerfið sjálft eða þeir sem koma að því skilji það ekki nægilega vel, heldur skilja neytendur og íslenskur almenningur ekki uppbygginguna á því hvernig verðlagsmyndunin er. Það er sjálfsagt að fara miklu betur í það og fá allt upp á borð.

Ég trúi á að samkeppni sé til hagsbóta fyrir alla, fyrir neytendur og bændur, fyrir íslenskt samfélag. Það þarf að rökstyðja það sérstaklega. Ég hef ekki heyrt rökin hjá hæstv. samgönguráðherra af hverju á að viðhalda sérreglu. Ég hef bara ekki heyrt rökin. Ég hef ekki heyrt þau. Það er nákvæmlega þess vegna og þeirra orða hæstv. samgönguráðherra sem var hérna í pontu áðan sem við í Viðreisn munum halda þessari ríkisstjórn við efnið. Henni verður haldið við efnið. Sérhagsmunir verða aldrei látnir ganga framar almannahagsmunum. (Gripið fram í.) Það er hins vegar þannig að Framsóknarflokkurinn og orð hæstv. samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins eru þannig að hann ætlar að halda áfram, það er reyndar 100 ára gömul saga, að viðhalda sérhagsmunum í þágu Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.)