148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

rannsókn á skipun dómara við Landsrétt.

[13:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Staðreyndin er því miður sú að dómsmálaráðherra hefur skapað vantraust á dómskerfið. Dómsmálaráðherra sem gerir slíkt — svo að við horfum á stöðuna og þær sviðsmyndir sem geta komið upp í þessu Landsréttarmáli, sem er að sjálfsögðu ekki lokið og kannski í rauninni bara rétt að byrja, en því gæti verið lokið í einni svipan með því að dómsmálaráðherra segði af sér. Það er mjög eðlilegt að dómsmálaráðherra sem skapar vantraust á dómskerfi landsins segi af sér. Það lítur út fyrir að það gerist ekki á næstunni en við sjáum til.

Næstur ábyrgðaraðila er ekki í salnum en það er hæstv. formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson. Hann getur skipt um dómsmálaráðherraefni flokksins. Það er eitthvað sem getur gerst. En það gerist líklega ekki nema það sé nógu mikill þrýstingur á hann til að gera það.

Því næst er forsætisráðherra sem getur farið fram á við forseta Íslands að skipa nýjan dómsmálaráðherra. Hún getur gert það. Það kostar líklega stjórnarsamstarfið nema það séu ærin tilefni og við búin að rannsaka þetta vel og fyrir liggi að þau geti ekki haldið dómsmálaráðherra við þessar kringumstæður. En við erum að rannsaka málið hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þá komum við að Alþingi sem er eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu. Rétt eins og dómsmálaráðherra á að vera eftirlitsaðili með matsnefndinni sem hún hlýddi ekki. Og réttilega voru þar sjónarmið uppi en þá þurfti dómsmálaráðherra að gera það samkvæmt lögum sem hún gerði ekki. Það er þess vegna sem við erum hérna í dag.

Alþingi getur sem eftirlitsaðili með dómsmálaráðherra upplýst þingmenn og almenning um verklag og ákvarðanir ráðherra við skipun Landsréttar. Meðan það er ekki gert og þetta er ekki uppi á borðum mun ekki ríkja traust hjá almenningi. Réttmætt traust til dómskerfisins er lykilatriði.

Ég spyr því dómsmálaráðherra hvort hún sé tilbúin til að lýsa því yfir hér og nú að hún styðji rannsókn Alþingis á ákvörðunum og verklagi sínu við skipun dómara í Landsrétt og óski eftir stuðningi samflokksmanna sinna sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á því að sú rannsókn fari hratt og vel fram, það sé ekki reynt að tefja, það sé gert (Forseti hringir.) hratt, vel, málefnalega, þannig að við fáum alla vega botn í það hvernig ráðherra stóð að málum.