148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

eftirlitsskyld lyf.

[14:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni spurninguna og tel raunar að hér sé jafnvel efni í sérstaka umræðu því að þetta er heilmikið og flókið mál sem er undir. Eins og fram kemur hjá fyrirspyrjanda hefur verið verulega aukinn þungi í eftirliti með ávísunum á vanabindandi lyf. Þar hefur verið haft samráð við fjölda lækna sem hafa fengið bréf með athugasemdum vegna lyfjaávísana. Embætti landlæknis birti nýlega leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun o.s.frv. Lyfjateymið hefur gripið til sérstakra aðgerða vegna ávísana. Það hefur líka verið haft samráð við lækna á bráðamóttöku vegna lyfjaávísana til sjúklinga sem leita þangað og aðallega verið að skoða ávísanir á verkjalyf og skammtastærðir til að auka gæði en líka til að sjá hvort verið sé að ávísa of stórum og óeðlilegum skömmtum á sjúklinga.

Ávísanir sterkra verkjalyfja hafa verið til sérstakrar skoðunar hjá nokkrum læknum sem ávísa allra mest. En verkjalyfjanotkun á tilteknum landsvæðum er meiri en á öðrum, það hefur komið fram í lýðheilsuvísum.

Samráðsfundir hafa verið haldnir milli lyfjateymis embættis landlæknis og Lyfjastofnunar vegna þessa. Fyrst hv. þingmaður spurði í lokin um sérstakan samráðsvettvang varðandi þá sem best þekkja til og skaðaminnkunarsjónarmiðin þá liggur fyrir að lagðar voru fyrir forvera minn í embætti sérstakar tillögur um skaðaminnkunaraðgerðir. Þar með talin var sú aðgerð að bjóða upp á neyslurými. Ég hef tekið þá tillögu upp og raunar þegar hafið samtal við borgaryfirvöld um það mál. Ég vonast til þess að geta farið aðeins dýpra í svörin í seinna svari.