148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í þingsköpum er talað um að forseti geti vítt þingmann ef hann talar óvirðulega um forseta þingsins eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum. Ég þurfti að leita að þessu af því að ég var borinn slíkum ásökunum af fyrrverandi forseta þingsins. Það er mjög sjaldgæft að þingmenn séu víttir.

Dómsmálaráðherra kom hér áðan og sakaði þingmenn Pírata um að greiða atkvæði gegn tillögum hæfisnefndar. Svo ég vitni í orð hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem talaði um atkvæðagreiðsluna í fyrra, með leyfi forseta:

„Ég vil líka segja fyrir hönd Pírata að við munum vera á rauða takkanum þegar málið verður afgreitt í heild sinni ef því verður ekki vísað frá. Það snýst ekki um þá einstaklinga sem eru að fara að taka sæti á þessu nýja dómstigi heldur um verkferlið.“

Ég frábið mér því algerlega orð og ásakanir dómsmálaráðherra. Ég spyr forseta hvort ekki eigi að beita ákvæði um brigslyrði þegar augljóst tilefni er til.