148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Nú hélt ég að það mætti búast við aðeins meiru frá hv. þm. Birgi Ármannssyni en að hann teldi að það að vilja sjá betra ferli og gera hlutina betur ætti einhvern veginn að fara eftir hvaða einstaklinga væri verið að kjósa um. Við vitum alveg að svoleiðis gengur það ekki fyrir sig. Við vorum að tala um ferlið allan tímann.

En svo maður tali um rangfærslur langar mig að leiðrétta eitt sem hefur fengið að koma svolítið oft upp á yfirborðið, aðallega frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er sú ranga mýta að þingmenn Pírata taki aldrei afstöðu. Það er rugl. Við tökum afstöðu í aðeins 12,1% færri málum en Sjálfstæðisflokkurinn. En vert er að athuga að við mætum 12,7% betur en Sjálfstæðisflokkurinn. Þannig að ef skilningurinn á að vera sá að við tökum aldrei afstöðu verður skilningurinn líka að vera sá að Sjálfstæðismenn mæti aldrei.