148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[14:24]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Þá hafa ekki fleiri beðið um orðið um fundarstjórn forseta, í bili a.m.k., og allmargir fullnýtt rétt sinn og talað tvisvar. Forseti ætlar því að láta á það reyna hvort þeirri umræðu sé lokið.

Ég vil taka fram vegna ummæla sem hér féllu að forseti stendur ekki í rökræðum við þingmenn um hvort hann biður þá í einhverjum tilvikum að gæta orða sinna, hvað þá ef hann gengur lengra og vítir þingmenn. Þar eru endanleg orð fallin af hálfu forseta sem ekki verða aftur tekin og þarfnast ekki rökstuðnings.

Í öðru lagi varðandi þá umræðu sem næst er á dagskrá, sem er 2. dagskrármálið, fjármálastefna, þá var um það samkomulag fyrir jól að fallast á ósk stjórnarandstöðunnar og taka það mál ekki fyrir og fresta því inn í janúarmánuð. Þar með mátti líka ljóst vera að það yrði eitt af fyrstu málum á þingi eftir að það kæmi saman að nýju í janúar. Á fundi með formönnum þingflokka síðastliðinn fimmtudag var sýnd fyrirhuguð dagskrá þessarar viku þar sem nefnd fjármálastefna var fyrsta mál á áætlaðri dagskrá þriðjudagsins, í dag, og var ekki hreyft sérstökum andmælum við því.

Forseta rekur ekki minni til þess að neinar umræður hafi komið fram eða óskir um tvöfaldan ræðutíma í umræðum um fjármálastefnu. Hitt var rætt að þegar ríkisfjármálaáætlun kæmi á dagskrá þyrfti að semja sérstaklega um rýmkaðan ræðutíma í því stóra máli.

Forseti vildi hins vegar bjóða upp á að rýmka nokkuð ræðutíma talsmanna þingflokka í fyrstu umferð og taldi að það væri sæmileg aukning að lengja ræðutíma ráðherra úr 15 í 20 mínútur og þingmanna úr 10 í 15 í fyrstu umferð. Forseti hefur nú ákveðið, með vísan til 67. gr. þingskapa, að þetta verði ræðutíminn, rýmkaður um fimm mínútur í fyrstu umferð til talsmanna þingflokka en að öðru leyti gildi venjulegar umræður og fullur andsvararéttur.