148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[14:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að fræðast um atriði í fjármálastefnunni sem á að vera í henni samkvæmt lögum um opinber fjármál, en þar á að vera stefna um umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga hins opinbera og opinberra aðila í heild. Ég sé ekki í fjármálastefnunni að það sé fjallað sérstaklega um þróun langtímaskuldbindinga, þar af leiðandi lífeyrisskuldbindinga og annarra skuldbindinga. Það ætti þó að fjalla um þær til a.m.k. fimm ára í senn. Það er sérstaklega tekið út úr töflunni um þróun skulda og eigna og því um líkt. Lífeyrisskuldbindingar eru ekki hafðar með. Ég spyr ráðherra af hverju. Ég hef heyrt bent á þetta áður en mér finnst ekki vera komin nægilega góð skýring á því að þetta sé ekki tekið með í fjármálastefnunni. Það ætti að sýna alla vega stöðuna og segja þá bara að þetta verði óbreytt eða eitthvað því um líkt, hvernig sem það er. Ég sakna þessa hluta.

Hitt málið sem ég myndi vilja spyrja ráðherra um er það sem á að gera samkvæmt lögunum, það á að staðfesta að fjármálastefnan uppfylli grunngildi og skilyrði sem eru talin upp, þ.e. skilyrði um heildarjöfnuð, heildarskuldir og skuldahlutfall. Ég sé í fjármálastefnunni að það er bara búin til setning sem segir að Alþingi staðfesti að öll grunngildi og skilyrði séu uppfyllt. Ég leitaði að rökstuðningi fyrir því að það sé verið að fara eftir t.d. grunngildi um gagnsæi, en það er ekki minnst einu orði á gagnsæi í fjármálastefnunni nema þegar er verið að vísa í sérstaklega lög um opinber fjármál. Þannig að ég spyr um skort á rökum hvað grunngildi og skilyrði varðar.