148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hv. þingmanns kom fram að verið er að lækka skatta og ákveðnar vísbendingar um að verið sé að kynda undir efnahagsbálinu, ef svo má að orði komast, ýta undir þensluna o.s.frv. Þá langar mig til að setja upp ákveðna sviðsmynd.

Segjum sem svo að heildarafkoman í lok 2018 eða 2019 verði ekki 1,2% af vergri landsframleiðslu heldur 1,5%. Þá eru tekjur meiri. Þá hefur stjórnin allt í einu 0,3% af vergri landsframleiðslu til þess að gera eitthvað við. Freistingin er náttúrlega að nota það í einhver ný og flott verkefni sem allir kalla eftir. En þau verkefni eru væntanlega ekki samkvæmt fjármálastefnu eða fjármálaáætlun eða fjárlögum jafnvel.

Sett er fram stefna með alveg fastri tölu — væntanlega eru einhver smá frávik, vikmörk á þeirri tölu sem maður getur talið eðlileg, vísindaleg frávik — en alla jafna þegar stefnir í þenslu hefur stjórnin brugðist í því að vera á bremsunni í efnahagskerfinu. Stefnan segir: Nei, við ætlum að halda þenslunni niðri og ekki skila heildarafkomu sem er hærri eða lægri en þetta. Þá ætti ríkið að halda sig við það. Ef það er þensla í gangi og allt stefnir í umframkeyrslu ættu ríkisstjórnin að grípa til aðgerða sem færa afkomuna aftur í áttina að því sem stefnan segir til um, til þess að hafa festuna og stöðugleikann sem stefnan á að uppfylla.