148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á innviðauppbyggingu en eins og ég fór yfir í máli mínu áðan er stefnt að því að fjárfestingarhlutfall hins opinbera verði hið sama og á árunum 2010–2016. Það er á þeim árum sem ekkert gríðarlega mikið var gert í innviðauppbyggingu enda ekki til peningur.

Ég velti fyrir mér hvernig núverandi ríkisstjórn ætlar að fara í innviðauppbyggingu á þessu tímabili fjármálastefnunnar með sama hlutfall opinberrar fjárfestingar og á árunum 2010–2016. Þá verður spítalinn sem nú er verið að byggja nánast úreltur svona stærðarlega séð, vegna fjölda fólks o.s.frv., þegar byggingartíma hans lýkur eða nálægt því. Skólakerfið, þar er náttúrlega heill hellingur sem þarf að huga að. Þó að það hafi verið keyptur tími í framhaldsskólunum til fjölgunar út af styttingu framhaldsskóla kemur á móti álag á háskólakerfið. Samgöngur, þar er heill hellingur sem þarf að gera vegna aukins álags og fjölda ferðamanna. Með þessu sama fjárfestingarhlutfalli hins opinbera skil ég ekki rökin fyrir því í fjármálastefnunni að það verði einhver innviðauppbygging. Kannski haldið í horfinu og gert aðeins betur hér og þar. Mér finnst vanta yfirsýn og áherslur. Er verið að fara í innviðauppbyggingu í skólakerfinu? Hversu mikið fer í samgöngur? Þetta er það sem ég hef gagnrýnt áður varðandi fjármálastefnuna. Hún gefur ekki vísbendingar um hvað við erum að fara að gera næst í fjármálaáætlun, þó ekki væri nema bara vísbendingar en ekki farið í nákvæmar tölur.