148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla að taka undir það að vísbendingar um fjárfestingar séu ekki skýrar. Ég talaði um það við gerð síðustu fjármálastefnu og þar áður líka held ég að mér fyndist að það ætti að stefna að því að með fjármálastefnu fylgdi líka fjárfestingaráætlun þannig að við gætum séð þetta.

Ég trúi því að það sé okkar framtíðarmúsík því að þetta er alveg rétt og sú gagnrýni sem hefur komið fram þó að gagnsæið hafi batnað eins og ég sagði áðan. Það er verið að bregðast að einhverju leyti við fyrri ábendingum fjármálaráðs en það þarf að gera betur. Við þurfum að gera þetta enn skýrara.

Auðvitað þekkjum við þörfina, hvort sem það er í skólakerfinu eins og hv. þingmaður kom inn á eða í sjúkrahúsmálum, samgöngum eða hvað það er. Ég tel að við getum fjárfest að einhverju leyti í öllu. Svo er auðvitað viðhald líka. Það er fjárfesting. Við megum ekki gleyma því. Þetta eru ekki allt nýfjárfestingar sem og að lagfæra, endurnýja og endurbæta það sem fyrir er. En eins og hv. þingmaður segir höfum við ekki beinlínis yfirlit yfir það. Við fáum það að einhverju leyti þegar samgönguáætlun kemur fram. Þá sjáum við hlutfall nýfjárfestinga og viðhalds. En það er líklega það eina sem við sjáum beinlínis, nema við fengjum einhvers konar fjárfestingaráætlun. Það er eitt af því sem við þurfum að stefna að og laga þegar næsta fjármálastefna verður lögð fram, þá verði slíkt plagg lagt fram samhliða.