148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með þingmanninum hvað þetta varðar. Fyrst við erum nú að fara að fjalla um stofnefnahaginn og fá þetta allt saman inn til okkar fer þessi stefnumótun kannski að taka á sig þá mynd sem til var ætlast samkvæmt lögunum. Það verður auðvitað ekki strax á fyrsta árinu eftir að stofnefnahagurinn kemur inn, eflaust verða einhverjir hnökrar á því og það gerist í einhverjum skrefum þó að það eigi að reyna að gera þetta í einu stóru stökki.

Það er alveg rétt að það var málþing, mig minnir að Samtök iðnaðarins hafi verið með það en man það þó ekki. Þörfin er upp á fleiri hundruð milljarða, það er alveg vitað, ef við ætlum að færa allt upp til nútímans, vegakerfið okkar eða alla innviði. Það kemur auðvitað fram þegar við förum svo að ræða stofnefnahaginn hvernig við höldum við eignum okkar og pössum upp á þær. Svo kemur það líka fram að einhverju leyti í stjórnarsáttmálanum, í hugmyndum um fyrirhugaðar framkvæmdir og öðru slíku. En vissulega er stór þáttur þessi nýi spítali sem á að sjálfsögðu að byggja, þ.e. byggja við. Það er eitt af mörgu.

Eins og ég sagði áðan höfum við ekki fjárfestingarlista í höndunum, fulltrúar meiri hlutans í fjárlaganefnd. Það er kannski þannig með okkur í áætlanagerð að við erum að hugsa of skammt, erum ekki endilega búin að ákveða fimm ár fram í tímann nákvæmlega hvaða aðgerðir við ætlum í enda eru, eins og við hv. þingmaður þekkjum, hagspár og aðrar áætlanir því miður svolítið gisk inn í framtíðina af því að við höfum ekki nógu góð líkön. Þess vegna reynum við að vera varfærin og fara þá eftir að minnsta kosti því(Forseti hringir.) gildi, sem er eitt af gildunum sem undir stefnunni liggja.