148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég sagði varðandi lækkunina á tekjuskatti er svo sem ekkert skilyrt af okkar hálfu. Fyrst og fremst þurfum við að standa vörð um stöðugleika og standa vörð um þau gildi sem fjármálastefnan byggir á. Við þurfum að gæta þess að það leiði ekki sjálfkrafa af sér verðbólgu eða aukna efnahagsþenslu eða eitthvað slíkt. Það hlýtur alltaf að vera grunnmarkmiðið. Ég held að það sé launþegum til hagsbóta, eins og ríkissjóði, þegar við förum að ræða innlegg af hálfu hins opinbera inn í kjarasamningagerðina.

Ég hef sjálf viðrað það hvort við ættum t.d. frekar að hækka persónuafslátt eða eitthvað slíkt. Hvað kostar að lækka tekjuskattsþrepið? Er hægt að setja þá fjármuni inn í persónuafslátt eða eitthvað slíkt? Mér finnst við geta horft á það með ýmsum hætti. En það er ekkert ákveðið í þessu. Það er hins vegar hugmynd sem sett er fram í stjórnarsáttmála.

Ég held að vinnumarkaðurinn verði líka að segja til um hvort þetta sé það sem menn telji heppilegast gagnvart skjólstæðingum sínum, að saman fari hagur ríkissjóðs og hagur launþega. Það hlýtur að vera brýnast í því þegar við göngum inn í kjarasamninga af hálfu ríkisins.

Við sjáum að það er ekki ólíklegt að hagvöxturinn dragist eitthvað aðeins saman, spár gera ráð fyrir því. Þá er tími til þess að hið opinbera fari í framkvæmdir, þar eru sóknarfærin. Hvernig þær verða fjármagnaðar höfum við ekkert rætt enn þá enda erum við ekki komin í þá stöðu. Það er nokkuð sem við þurfum samt sem áður að horfa til (Forseti hringir.) og verður örugglega gert.