148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Virðulegi forseti. Í dag kýs ég að gera að umtalsefni mínu pólitíska ábyrgð. Því miður hefur venjan verið sú að íslenskir ráðherrar axli ekki pólitíska ábyrgð sína með afsögn líkt og tíðkast t.d. á hinum Norðurlöndunum. Af þessu leiðir að íslenskir stjórnmálamenn fá í of miklum mæli að njóta vafans þegar hinn almenni borgari ætti í raun og veru að njóta hans. Síendurtekið hafa íslenskir ráðherrar orðið uppvísir að vafasömum vinnubrögðum en í stað þess að segja af sér strax reynt að sannfæra almenning um að ekkert misjafnt hafi átt sér stað á meðan fjölmiðlar reyna eftir fremsta megni að varpa ljósi á misfellurnar.

Ég ætla hvorki að þreyta ykkur með að telja upp þau mál þar sem þetta hefur verið raunin á Íslandi né að nefna öll þau mál frá Norðurlöndunum þar sem ráðherrar hafa sagt af sér fyrir það sem hér á landi myndi teljast tittlingaskítur.

En gott og vel. Ef við viljum ekki breyta venjunni og láta ráðherra bera ábyrgð með afsögn þarf í það minnsta að setja einhvers konar varnagla inn í kerfið þannig að hér þurfi ekki að ganga til kosninga ár eftir ár vegna óábyrgra og þaulsetinna ráðherra. Þingrof og kosningar geta ekki leyst ráðherra undan ábyrgð.

Hæstv. forsætisráðherra hefur orðið tíðrætt um starfshóp um traust á stjórnmálum en gleymum því ekki að við höfum hin ýmsu tæki sem eiga að tryggja traust og koma í veg fyrir spillingu, þar á meðal óskráða reglu stjórnsýsluréttar, siðareglur, landsdóm og reglur um hæfi. Ég vona að niðurstaða starfshópsins verði ekki bara enn ein viðbótin í þessi fjöldamörgu kerfi heldur að fram komi virkt úrræði sem verði til þess að ráðherrar neyðist til að bera skýra ábyrgð á sínum pólitísku ákvörðunum.

Pólitísk ábyrgð felur ekki eingöngu í sér að segja afsakið þegar ljóst er að slæleg vinnubrögð hafi átt sér stað. Pólitíska ábyrgð þarf að bera í öllum störfum ráðherra. Getum við sameinast um það að leyfa almenningi að njóta vafans og hætta að eyða tíma Alþingis og almennings í að ræða afglöp ráðherra í starfi? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)