148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera samgöngur að umtalsefni mínu í dag. Samkvæmt lögum um samgönguáætlun er leitast við að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar og öruggar, umhverfisvænar og styrki jákvæða byggðaþróun. Helstu áskoranir við gerð samgönguáætlunar eru að mæta þörfum íbúa og atvinnulífs, að faglegar greiningar liggi að baki forgangsröðun og að horft sé til þess að allir komist ferða sinna á öruggan máta. Horfa á til þess að lágmarksaðgengi sé að nauðsynlegri, opinberri grunnþjónustu og auk þess skal aðgengi og hreyfanleiki í samgöngukerfinu fyrir fólks- og vöruflutninga innan og á milli svæða verða bætt. Jafnframt skal áhersla vera lögð á vinnusóknarsvæði í samræmi við sóknaráætlun landshluta þar sem leitast er við að stytta ferðatíma og stækka svæðin.

Uppbygging og rekstur samgangna á að stuðla að eflingu atvinnulífs og sérstaklega skal hugað að uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu, m.a. með því að styrkja gáttirnar inn í landið. Akureyrarflugvöllur er dæmi um eina slíka gátt og mikilvægt að standa við það að hún virki. Hér er um að ræða mörg og mikilvæg markmið enda eru samgöngur ein af lífæðum hverrar byggðar og þær þarf að bæta.

Það blasa við brýn verkefni í uppbyggingu innviða um land allt. Samgöngur eru undirstaða þess að samfélag geti þrifist á eðlilegan hátt hvað varðar atvinnu, menningu, öryggi og almenna framþróun.

Góðar og greiðar samgöngur skapa störf og undanfarin ár hafa þéttbýliskjarnar stækkað. Samhliða því hafa miklar breytingar orðið á þróun byggða og atvinnusvæða. Það er nauðsynlegt að styrkja samgöngukerfið því að störfin búa til hagvöxt sem er undirstaða vaxtar og velmegunar þjóðfélaga.

Það er því eitt af forgangsatriðum ríkisstjórnarinnar að bæta enn við fjárframlög til vegaframkvæmda og það veitir ekki af til að taka á uppsöfnuðum vanda hringinn í kringum landið.