148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni nýlega gjaldþrotabeiðni United Silicon. Ekki til þess að hlakka yfir óförum þeirra sem kunna að eiga um sárt að binda af völdum þess heldur vegna þess að hér gæti vonandi og hugsanlega verið um að ræða vatnaskil í uppbyggingu atvinnulífs hér á landi, að hætt verði að ausa almannafé svo milljörðum nemur í óraunhæf verkefni, illa undirbúin, illa skipulögð og illa framkvæmd, einungis vegna þess að þau eru talin skapa störf.

Við eigum von á skýrslu Ríkisendurskoðunar um aðdraganda og rekstur þessarar verksmiðju sem átti að verða hin stærsta í heimi og naut allrar hugsanlegrar og ekki síður óhugsanlegrar fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda og ríkjandi aðila í fjármálalífi. En við vitum nú að margt fór þar úrskeiðis frá byrjun þegar erlendir bankar treystu sér ekki til að fjármagna verkefnið og til loka þegar í ljós kom að Arion banki og lífeyrissjóðir höfðu ausið í það um 8 milljörðum án þess að nokkurt faglegt mat virðist hafa farið fram á því hversu viskuleg sú fjárfesting væri.

Fjárfest var í vanefndum og vanskilum, frávikum frá teikningum sem umhverfismat miðaðist við. Fjárfest var í mengun langt yfir mörkum, svo fátt eitt sé talið.

Mig langar að nota þetta tækifæri, herra forseti, til að biðja íslenska ráðamenn og fólk sem falið er að fara með almannafé að gjalda varhug við tveimur töfraorðum í atvinnulífinu: Stórhugur og stóriðja. Við ættum að hrökkva í kút í hvert sinn sem við heyrum orðið stór og þegar við heyrum orðið stærst eigum við að taka til fótanna. [Hlátur í þingsal.]